top of page

APA 7 - helstu breytingar í 7. útgáfu APA staðals

APA kerfið er orðið einfaldara í notkun með 7. útgáfu, sem kom út í lok árs 2019. Þó eru örfá atriði orðin flóknari, s.s. að nú skuli telja upp alla höfunda verks í heimildaskrá ef þeir eru færri en 21. Það helsta sem hefur breyst frá 6. útgáfu APA staðals varðandi tilvísanir og heimildaskráningu er:

  • Heiti vefs er tekið fram nú auk slóðar vefsíðu

  • Allir höfundar hverrar heimildar (allt að 20) skulu nú nefndir í heimildaskrá

  • Útgáfustaður á ekki lengur að koma fram fyrir bækur

  • Sótt af á ekki lengur að skrifa á undan vefslóðum nema í undantekningartilvikum

  • DOI skal skrifa eins og vefslóð, ekki setja „DOI“ fyrir framan

  • o.fl. á nú að nota í allar tilvísanir með fleiri en tvo höfunda

Heiti vefs kemur nýtt inn og „Sótt af“ dettur út

Heiti vefs eða stofnunar er nú nefnt í APA heimildaskrá en það þurfti ekki í 6. útgáfu, sjá dæmi:


Ágúst Ólafsson. (2021, 19. júlí). Erlendir ferðamenn skila sér aftur í hvalaskoðun. Sótt af https://www.ruv.is/frett/2021/07/19/erlendir-ferdamenn-skila-ser-aftur-i-hvalaskodun


Í APA 7 heimildaskrá bætist heiti vefsins eða titill vefsíðunnar við og „Sótt af“ hverfur:


Ágúst Ólafsson. (2021, 19. júlí). Erlendir ferðamenn skila sér aftur í hvalaskoðun. RÚV. https://www.ruv.is/frett/2021/07/19/erlendir-ferdamenn-skila-ser-aftur-i-hvalaskodun


Undantekning varðandi „Sótt af“ er fyrir heimildir sem hafa vefslóð þar sem upplýsingarnar á viðkomandi vefsíðu þykja líklegar til þess að breytast milli ára. Þá þarf að taka fram dagsetningu sem hún var sótt og skrifa fyrir framan vefslóðina:


Sótt 19. júlí 2021, af https://www...


Margir höfundar sama verks

Í 6. útgáfu var nóg að taka fram fyrstu sex höfunda ef höfundar voru fleiri en átta og setja síðan þrjá punkta … og loks nafn síðasta höfundar. Allir höfundar hverrar heimildar (allt að 20) skulu hins vegar nefndir í heimildaskrá skv. APA 7:


Abraham, C., Miller Z., Ellis, S., Driscoll, J., Renman-Fryer, R., Fuller, J., Bayer, S. A., Faben, M., Mellor, K., Murphy, N., O'Neill, J., Tosh, M. E., Ciccaglione, A. R., Hoffnan, A., Zala, H., Langer, H., de Souza, R., Avermore, A., Sunderland, L., … Inman, S. (2017). Introduction to evidence-based practice in nursing. Oxford University Press.


Útgáfustaður dettur út

Útgáfustaður þarf ekki lengur að koma fram fyrir bækur. Þetta atriði gat vafist fyrri fólki því sum verk hafa mismunandi útgáfustaði eða fleiri en einn útgáfustað. En nú er sá hausverkur úr sögunni:


Hosseini, K. (2003). The kite runner. Riverhead Books.


Þegar höfundur og útgefandi eru sami aðili á ekki lengur að endurtaka höfund sem útgefanda. Sem dæmi er American Psychological Association aðeins nefnt í upphafi eftirfarandi heimildar í heimildaskrá og sleppt í stöðu útgefanda í lokin:


American Psychological Association. (2020). Publication manual of the American Psychological Association (7. útg.). https://doi.org/10.1037/0000165-000


DOI númer sem vefslóð

Í 6. útgáfu APA átti að skrifa „doi:“ á undan DOI númeri heimilda:


Gelkopf, M., Ryan, P., Cotton, S. og Berger, R. (2008). The impact of “training the trainers” for helping tsunami-survivor children on Sri Lankan disaster volunteer workers. International Journal of Stress Management, 15(2), 117-135. doi:10.1037/1072-5245.15.2.117


Í APA 7 er ekki skrifað „doi:“ heldur er númerið gefið upp á formi vefslóðar sem byrjar á https://doi.org/ eins og sést í þessu dæmi:


Smith, J. D. (2009). Research ethics in New Zealand: A student guide. https://doi.org/10.1000/182


Í APA 7 er DOI númerið alltaf gefið upp ef það er í boði. Hér er leitarvél fyrir DOI númer.


Einfaldari tilvísanir

Tilvísanir í verk eftir þrjá eða fleiri höfunda eru nú skráðar með o.fl. á eftir fyrsta höfundi, bæði fyrsta tilvísun og seinni tilvísanir í viðkomandi verk.


Hér má sjá fleiri dæmi um skráningar í APA heimildaskrá.


Samantektin að ofan byggir aðallega á leiðarvísi bókasafns HR um APA staðalinn.

Комментарии


bottom of page