top of page

Þýðingar - orðabækur og önnur tól

Við þýðingar úr íslensku eða á íslensku má styðjast við ýmsar orðabækur sem finna má á netinu. Þekktasta orðabókin er Snara, sem er í raun safn orðabóka á einum stað. Google Translate inniheldur töluvert af villum en gagnast oft vel til að komast á sporið. Hér á eftir verður fjallað nánar um orðabækur sem gagnast við þýðingar á og úr íslensku, þýðingaforrit sem auðvelda þýðingar með notkun þýðingaminnis og hvaða þættir hafa áhrif á verð þýðinga.


Þýðingaforrit og þýðingaminni

Þýðingaforrit styðjast við þýðingaminni, þannig að forritið þekkir sama textabút ef hann birtist aftur og leggur til þýðingu úr minninu. Meðal þekktustu þýðingaforritanna eru MemoQ og Trados Studio, sem kaupa má í áskrift. Einnig eru til ókeypis þýðingaforrit á borð við OmegaT, sem ég hef notað töluvert undanfarin ár, en það er ansi takmarkað og að mörgu leyti gamaldags. Það ræður t.d. illa við allar sniðbreytingar innan texta á borð við skáletrun, punktalista, tilvitnanir o.s.frv. OmegaT er því mun ófullkomnara en þekktari forritin sem greiða þarf fyrir, en þó betra en ekkert. Það byggir á þýðingaminni eins og hin fyrrnefndu en minnið í því inniheldur bara það sem viðkomandi notandi hefur sjálfur þýtt áður á meðan Trados Studio og MemoQ byggja á þýðingaminni í skýinu þar sem aðrir notendur hafa líka lagt í púkkið. Þessi tvö forrit eru því sterkari í krafti fjöldans.


Þýðingaforritið OmegaT sem byggir á þýðingaminni
Þýðingaforritið OmegaT

Orðabækur á netinu

Snara er eins og fyrr segir besta og ítarlegasta orðabókasafnið á netinu sem er í boði fyrir íslensku. Meðal orðabóka sem Snara leitar í eru Hugtakasafn Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins, Íðorðabankinn (sem áður hét Orðabanki íslenskrar málstöðvar), Íslensk-ensk orðabók, Orðabók Aldamóta (ordabok.is), Dönsk-íslensk orðabók, Þýsk-íslensk orðabók, Spænsk-íslensk orðabók og Frönsk-íslensk orðabók. Málið.is er besta uppflettisíðan fyrir íslenskt mál en hún leitar í Íslenskri nútímamálsorðabók, Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN), Íslenskri stafsetningarorðabók, Íslensku orðaneti, Málfarsbankanum og Íðorðabankanum.


Þýðingar með hjálp Snöru
Snara.is leitar þýðinga í fjölda orðabóka

Aðrar ókeypis orðabækur sem nefna má eru:

  • Ensk.is (unnin upp úr 3. útgáfu ensk-íslenzkrar orðabókar Geirs T. Zoëga frá árinu 1932 en með ýmsum endurbótum, viðbótum og leiðréttingum)

  • Merriam-Webster (ensk orðabók með skilgreiningum á ensku)

  • Dictionary.com (ensk orðabók með skilgreiningum á ensku)

  • Dict.cc (þýðingar milli fjölda mála sem byggja á tillögum og yfirferð notenda)

  • Glosbe (þýðir úr ensku á íslensku og hina leiðina auk fjölda annarra mála)

  • Google Translate (ekki orðabók en getur oft gert sama gagn)

  • Wordreference.com (þýðingar milli ýmissa mála, hópur sjálfboðaliða hefur unnið þýðingarnar úr ensku á íslensku)

Ensk-íslensk orðabók á dict.cc
dict.cc orðabókin byggir á þýðingum og yfirferð notenda

Ég hef áður fjallað um orðabækur á netinu á ítarlegri hátt.


Oft vantar hins vegar í orðabækur orð á íslensku fyrir hugtök sem tengjast t.d. upplýsingatækni og markaðssetningu. Það er ekki alltaf einföld lausn á því en má benda á nokkra hópa á Facebook sem fjalla um þýðingar hugtaka sem ekki finnast í orðabókum:

  • Þýðingar og nýyrði

    • Umræður um þýðingar orða sem vantar í íslensku. Engin afmörkun við ákveðin svið eins og í sumum hinna hópanna.

  • Íslensk tölvuorð

    • Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands (Ský) stofnaði hópinn til þess að fá tillögur og umræður um ný orð tengd upplýsingatækni.

  • Það vantar íslenskt orð fyrir…

    • Umræður um íslensk orð fyrir „eitthvað sem er svo auðvelt að segja á ensku“.

  • Þýðingar í hugvísindum

    • Hópur fyrir þau sem fást við þýðingar á textum innan hugvísinda til að heyra hvert í öðru, bera upp vandamál og finna lausnir.

  • Þýðingar í félagsvísindum

    • Hópur fyrir þau sem fást við þýðingar á textum innan félagsvísinda til að heyra hvert í öðru, bera upp vandamál og finna lausnir.

  • Þýðingar (enska-íslenska)

    • Hópur til að finna þýðingar á hugtökum á tungumálunum tveimur.


Að þýða eftir krókaleiðum

Ef orðabækur og netleit koma ekki að gagni má athuga þýðingar úr öðrum málum. Þótt ekki finnist íslensk þýðing á orði á ensku gæti verið til t.d. dönsk eða þýsk þýðing sem hjálpar við að komast á sporið eða sjá nýja möguleika. Þannig gæti íslensk þýðing úr ensku verið með viðkomu í þriðja máli. Einnig má leita fyrst að samheitum orða og þannig oft finna á mun einfaldari hátt sambærileg orð á því erlenda tungumáli sem verið er að þýða á. Samheiti opna líka oft á setningar og orðasambönd á leitarvélum sem leiða þýðandann á rétta braut.


Önnur leið sem getur gagnast við að skilja orðið sem þarf að þýða er einfaldlega að gúggla orðið og skrifa definition eða meaning á eftir til þess að fá upp enska skilgreiningu á viðkomandi orði. Einnig má nota Google leitarvélina til að athuga hvort aðrir hafa þýtt viðkomandi orð í íslenskum textum á netinu. Þetta er gert með því að skrifa fyrst site:.is (sem þýðir að leitarvélin leitar á lénum með endinguna .is) og síðan í gæsalöppum en. og loks enska orðið áður en gæsalappirnar lokast. Orðið meme finnst t.d. ekki í orðabókum en ég get athugað hvort og þá hvernig aðrir hafa þýtt það með því að skrifa í Google leit site:.is „e. meme“ og þá fæ ég þessar niðurstöður:


Svona má finna þýðingar í gegnum Google leit
Að finna þýðingar í gegnum Google leit

Þarna sé ég að DV og Morgunblaðið hafa þýtt orðið sem jarm á meðan RÚV hefur þýtt það sem netjarm.


Í Google Sheets töflureikninum er skemmtileg formúla sem þýðir texta með Google Translate. Ef dálkur A inniheldur t.d. lista af orðum á spænsku mætti nota Google Translate formúluna til þess að þýða orðin yfir á íslensku í dálk B, ensku í dálk C og dönsku í dálk D. Í hvað má nýta það? Til dæmis til þess að fá orðalista til að nota í leitarorðagreiningu. Hér að neðan er myndband sem sýnir notkun formúlunnar á einfaldan hátt:



Verð þýðinga

Þýðingar hjá þýðendum kosta mismikið og ræðst verðið af ýmsum þáttum, s.s. orðafjölda, reynslu þýðandans, málasviði og tímapressu. Einnig skiptir skráarsnið skjals máli (s.s. hvort það er pdf, Word skjal eða annað).


Orðafjöldi

Orðafjöldi er algeng mælieining í þýðingum þannig að margfalda má uppgefið verð á orð með fjölda orða til þess að sjá heildarverð. Fyrir kaupendur þýðinga er ráðlegt að fá að vita fyrir fram hvaða verð þýðandi tekur á orð til þess að vita heildarverðið áður en gengið er til verka. Fyrir þýðendur er mikilvægt að sjá texta áður en þeir gefa upp verð til þess að átta sig á umfanginu. Sumir þýðendur setja upp verð á klukkustund en það er yfirleitt verri kostur fyrir kaupendur því gagnsæið varðandi heildarverð skortir, nema samið sé um fastan tímafjölda fyrir fram.


Reynsla þýðanda

Reynslan skiptir að sjálfsögðu miklu máli en einnig skyldi huga að þekkingu þýðanda á viðkomandi sviði, t.d. þarf mikla sérhæfingu til að þýða ljóð og tækniskjöl. Þýðandi ber ábyrgð á að taka aðeins að sér verkefni sem hann ræður við, annars hættir hann á að skila af sér lélegri þýðingu og það getur eyðilagt orðspor hans. Löggilding er ákveðinn gæðastimpill, en löggiltir þýðendur hafa staðist próf sem ætlað er að meta færni þeirra í þýðingum. Fyrir kaupanda þýðinga er ágætt að kanna umsagnir um viðkomandi þýðanda eða þýðingastofu áður en gengið er frá kaupum á þjónustu.


Málasvið

Málasvið þýðingar skiptir máli, til dæmis er hæpið að nýgræðingur í þýðingum kasti sér beint í að þýða flókinn lagatexta eða bók um lífefnafræði. Því sérhæfðari sem texti er, þeim mun mikilvægara er að þýðandi hafi þekkingu á efninu. Einfaldir og almennir textar, t.d. um dægurmál, ættu að vera viðráðanlegir fyrir flesta þýðendur.


Tímapressa

Tímapressa getur skipt miklu máli varðandi verð, t.d. má gera ráð fyrir hærra verði ef þýðandinn þarf að sitja sveittur við öll kvöld og helgar vegna tímapressu fyrir þýðingu. Ef forgangsraða þarf verkefninu fram fyrir önnur verkefni er það fórnarkostnaður sem gera þarf ráð fyrir í verðlagningu.


Skráarsnið skjals

Skráarsnið getur haft mikið að segja, t.d. hvort um er að ræða Word skjal eða pdf. Ef skjalið er skannað pdf skjal er ekki hægt að vinna með það í þýðingaforriti og fer þá mikil aukavinna í að búa til nýtt sambærilegt skjal fyrir þýðinguna.


Hefur þú ábendingu eða spurningu um þýðingar? Þá er þér velkomið að skrá hana fyrir neðan eða hafa samband.


Comments


bottom of page