top of page

Nokkrar algengar villur í ritgerðum og öðrum textaskrifum

Þegar ég les yfir ritgerðir og aðra texta koma ákveðnar gerðir af villum mun oftar fyrir en aðrar. Sumar eiga við stafsetningu og málfar, aðrar eru einfaldar innsláttarvillur. Hér á eftir fer samantekt á helstu villum sem ég hef rekist á við yfirlestur.


Stafsetning og málfar

Tölur frá 1-10 ætti almennt að skrifa sem orð í texta. Dæmi: Tvær milljónir ferðamanna komu til landsins í fyrra samanborið við þrjár milljónir árið áður. Ekki: 2 milljónir ferðamanna komu til landsins í fyrra samanborið við 3 milljónir árið áður.

„Fyrst að“ ekki „víst að“. Dæmi: Fyrst að innfæddir synda í sjónum við ströndina hlýtur að vera óhætt að synda þar.

„Mánaðamót“ ekki „mánaðarmót“. Tveir mánuðir mætast á mánaðamótum.

Ekki samkeppnisaðili heldur keppinautur

Ekki styrktaraðili heldur bakhjarl

Ekki hágæðavörur heldur gæðavörur eða fyrsta flokks vörur


Forsetningarnar að og af

Mjög algengt er að rugla saman af og að, munurinn er ekki nema einn stafur og í töluðu máli getur stundum reynst erfitt að heyra muninn.

Hér eru dæmi um setningar með réttum forsetningum:

Ég hef gaman af fótbolta.

Það er gaman vitleysunni í stráknum. Athugið muninn á „að hafa gaman af“ og „það er gaman að.“ Sjá nánar hér.

Þau voru sammála þessu leyti.

Hlýnunin er af mannavöldum.

Björgunarsveitir leituðu ferðafólkinu í allan gærdag.


Yfirlestur í Microsoft Word

Með því að stilla á yfirlestur á textanum í ritvinnsluforritinu á réttu tungumáli má auðveldlega koma í veg fyrir einfaldar villur en hafa ber í huga að sjálfvirkar leiðréttingar grípa ekki nærri allar villur, bara þau orð sem eru ekki til í þeirri útgáfu sem rituð er.

Dæmi: Skömmu fyrir aldamót jukust vinsældir svokallaðs Tamagotchi-tölvugæludýra jafnt og þétt þar til æðið fjaraði út á árunum eftir aldamótin.

Þarna beygist „svokallaðs“ miðað við að eintöluorð fylgi á eftir en fleirtöluorðið „tölvugæludýra“ fylgir. Þarna þyrfti að breyta beygingunni í „svokallaðra“ eða að rita orðið sem fylgir í eintölu: „tölvugæludýrs“. Svona villu ráða tölvur ekki við enn sem komið er en fólk getur greint þær í yfirlestri.


Óþarfar málalengingar

Hér eru nokkur dæmi um óþarfar málalengingar og hvað má nota í staðinn:

Sem og = og. „Sem og“ þýðir „og líka“. Dæmi úr orðabók: „Í boði eru góð laun sem og húsnæði.“ Sumum hættir til að nota „sem og“ hér og þar í staðinn fyrir „og“ en „og“ er oft nóg.

Hér er talað um ástæður vegna e-s:

„…og helstu ástæður þessara frávika geta verið t.d. vegna ófullnægjandi leiðbeininga þjálfara…“

Forðast skyldi tvítekningu með því að nota einungis vegna e-s eða eingöngu ástæður e-s:

„…og helstu ástæður þessara frávika geta verið t.d. ófullnægjandi leiðbeiningar þjálfara…“

Ekki gott: „Hér verður farið yfir hvað það er sem helst brennur á íbúum Suðurkjördæmis þegar kemur að samfélagsmálum.“

Betra: Farið verður yfir hvaða samfélagsmál helst brenna á íbúum Suðurkjördæmis.


Gæsalappir og tilvitnanir

Rétt málfar lítur ekki alltaf vel út á blaði. Gott dæmi um það eru punktar og kommur á undan gæsalöppum í lok beinnar ræðu. Þetta er rétt:

Eftir langa umhugsun sagði Hannes: „Þá förum við bara tvö suður.“ Hlín var ekki sannfærð: „En hvað með blessuð börnin?“

Hér er ítarlegri samantekt um greinarmerkjasetningu.


Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð…

Kristinn R. Ólafsson benti eitt sinn á á Facebook að við ættum ágætan viðtengingarhátt í íslenskunni, sem virkar án hjálparsagna, rétt eins og í ljóðinu við lagið góða af leikskólanum:

Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð

um sólina, vorið og land mitt og þjóð.

En mömmu ég gæfi mín ljúfustu ljóð,

hún leiðir mig, verndar og er mér svo góð.

Ljóðið yrði skrýtið í nútímaútgáfu:

Ef ég myndi vera söngvari þá myndi ég syngja ljóð

um sólina, vorið og land mitt og þjóð.

En mömmu ég myndi gefa mín ljúfustu ljóð

og þúst bara allskonar.

„Það einfalda er best“ eins og KK segir í laginu.


Skipting samsetts orðs í tvö orð

Margir hafa tilhneigingu til að slíta samsett orð í sundur og skrifa sem tvö orð. Þetta gætu verið áhrif úr ensku eins og bent er á á Vísindavefnum. Nokkur dæmi eru:

Stærðfræði próf -> stærðfræðipróf

Friðhelgis stefna -> friðhelgisstefna

Vatnaveiði handbókin -> Vatnaveiðihandbókin


Aukabil

Það fyrsta sem ég geri þegar ég fæ ritgerð til yfirlestrar er að athuga hvort í henni séu aukabil. Það er mjög algengt að fólk slái óvart tvisvar á bilstöngina á lyklaborðinu og getur verið erfitt að reka augun í það á skjánum þegar rennt er í gegnum textann. En þetta má auðveldlega leiðrétta með einfaldri leit í ritvinnsluforritinu að tveimur bilum og með því að setja inn skipun um að skipta út öllum tvöföldum bilum fyrir einföld bil, Find and Replace og síðan Replace All:


Yfirlestur ritgerða
Prófarkalestur: aukabil

Comments


bottom of page